PBS hugmyndafræðin

Árið 2007 hóf starfsfólk Suðurborgar að innleiða PBS sem stendur fyrir Positive Behavior Supports eða Stuðningur við jákvæða hegðun. PBS er árangursrík aðferð til að stýra hegðun barnanna á jákvæðan hátt. Innlögnin skiptist í þrjá hluta og höfum við nú innleitt tvo af þremur. Þriðji hlutinn verður innleiddur eftir áramót.

Fyrsti hlutinn byggist á því að setja einfaldar og skýrar reglur sem börnunum er síðar kennt á skemmtilega hátt í gegnum starfið. Jákvæð hegðun er síðan viðhaldið með reglulegum æfingum, hvatningu og hrósi.

Í öðrum hluta leggjum við áherslu á félags- og tilfinningafærni. Þar vinnum við með tilfinningafærni, vinafærni, reiðistjórnun og lausnamiðaða leikni. Við kennum börnunum að gera sér grein fyrir eigin tilfinningum og annarra og að tjá tilfinningar. Við tökum fyrir 6 tilfinningar þ.e. glaður, leiður, reiður, hræddur, hissa og áhyggjufullur. Við kennum börnunum að leysa ágreining með því að leita lausna á vandamálinu á myndrænan hátt. Einnig kennum við börnunum hvernig best er að bregðast við þegar þau verða reið og notum við til söguna um Skjaldbökuna. Samhliða hverri innleiðingu verðum við alltaf að vinna með það sem áður er búið að innleiða. Markmið okkar er að skapa jákvæða hegðun og færni í mannlegum samskiptum.

Í þriðja hlutanum er lögð áhersla á einstaklingsmiðuð úrræði fyrir þau börn ekki ná að tileinka sér þær aðferðir sem kenndar eru í fyrsta og öðrum hluta. Til þess að aðstoða þessi börn hefur verið skipað teymi innan leikskólans til þess að skoða hvert tilfelli fyrir sig og finna leiðir til úrbóta.

Öll vinna er í samstarfi við Þjónustumiðstöð Breiðholts og eru Elísa Guðnadóttir sálfræðingur og Margrét Birna Þórarinsdóttir sálfræðingur okkar handleiðarar.