Hagnýtar upplýsingar

Velkomin í leikskólann

Þegar barn byrjar í leikskólanum eru foreldrar boðaðir í viðtal við deildarstjóra þar sem starfsemi leikskólans er kynnt. Gerður er dvalarsamningur þar sem foreldrar ákveða hversu lengi barnið dvelur í leikskólanum dag hvern. Einnig er farið yfir aðlögunaráætlun og þær reglur sem ríkja í leikskólanum. Öll börn sem byrja í leikskólanum fá möppu með upplýsingum um leikskólann, Leikskólasvið Reykjavíkurborgar, þjónustumiðtöð Breiðholts og hlutverk foreldrafélagsins. Foreldraviðtöl eru tvisvar sinnum á ári þar sem foreldrar fá upplýsingar um þroska barnsins og líðan þess í leikskólanum. Einnig fá foreldrar ýmsar upplýsingar frá starfsmönnum í daglegum samskiptum, á upplýsingatöflum og á auglýsingum sem hanga uppi á deildum. Deildarstjórar senda líka tölvupóst reglulega með upplýsingum um það hvað við erum að gera.


Afmæli og afmælisboð

Þegar börn eiga afmæli þá fá þau að vera í aðalhlutverki þann dag. Þau fá að vera ,,þjónar" þ.e. leggja á borð og bjóða til borðs. Barnið fær afmæliskórónu og skikkju til að hafa þennan dag og má koma með niðurskorna ávexti með sér í leikskólann. 

Leikskólinn hefur sett þá reglu að þegar boðið er til veislu með boðskortum sem sett eru í hólf skulu eftirfarandi reglur gilda:

 1. Það er gert með vitund starfsfólks á deild
 2. Öllum árganginum er boðið eða
 3. Öllum stelpunum er boðið eða
 4. Öllum strákunum er boðið eða
 5. Öllum á deildinni er boðið.

Þetta kemur í veg fyrir mismunun og að börn upplifi höfnun. Ef foreldrar vilja einungis bjóða útvöldum í afmæli eru þeir beðnir um að gera það símleiðis til viðkomandi foreldra.


Leikskólataskan

Nauðsynlegt er að hafa aukaföt með barninu og þannig fatnað að þau geti verið úti hvernig sem viðrar. Föt barnanna sem og skór þurfa að vera vel merkt. Vinsamlegast verið ekki með of mikið af skóm eða fatnaði sem börnin mega ekki nota í leikskólanum.

Leikskólinn hefur nú tekið upp svokallað ,,kassafyrirkomulag" en í hverjum fataklefa er plastkassi merktur með nafni barnsins. Í honum á að geyma þau aukaföt sem nauðsynlegt er að barnið hafi með í leikskólanum. Ekki er þörf á því að tæma þennan kassa um helgar en foreldrar verða að fara í gegnum kassana reglulega og fylla á það sem vantar. Á hverjum kassa er listi yfir það sem á að vera í honum.

Útifötin sem barnið er með í leikskólanum skal koma með í leikskólann á mánudegi og tæma skal hólfin á föstudegi. A.t.h. ekki er ætlast til að barnið sé með töskur í hólfunum þar sem þær taka of mikið pláss. Það þarf einnig að tæma snagana fyrir pollafötin og stígvélahillurnar á föstudegi.

Það sem er æskilegt að hafa í leikskólatöskunni:

 • Auka nærföt, sokkabuxur, buxur og peysu
 • Hlýjan útifatnað svo sem ullarsokka, vettlinga, húfu, hlýja peysu, útigalla og pollagalla.
 • Stígvél, kuldaskó, létta skó að sumri.
 • Vinsamlegast verið ekki með fleiri en tvenn pör af skóm í leikskólanum í einu vegna plássleysis
 • Foreldrar eru svo vinsamlegast beðnir um að fylgjast með að útifötin séu hrein.
 • Vinsamlega tæmið hólfin á föstudögum.

Munið að hafa föt og skó barnanna vel merkt.


Veikindi barna

Vinsamlegast tilkynnið ef barnið er veikt eða fjarverandi. Eftir veikindi er æskilegt að börn dvelji heima 1-2 sólahringa hitalaus. Veik börn eiga ekki að dvelja í leikskóla. Börnin geta verið inni 1-2 daga eftir veikindi. Ekki er æskilegt að börn séu inni í útveru til að fyrirbyggja veikindi nema í undantekningatilfellum. Ef barn er fjarverandi vegna veikinda í 4 vikur samfellt eða meira er heimilt að gefa eftir helming dvalargjalds gegn læknisvottorði.


Lyfjagjöf á leikskólatíma

Ef börn í leikskóla þurfa á lyfjum að halda ber að haga lyfjagjöf þannig að lyfin séu gefin heima en ekki í leikskólanum. Undantekning er gerð ef börn þurfa að taka lyf að staðaldri eins og astmalyf, flogaveikislyf ofl.


Slys á börnum

Ef slys ber að höndum ber að tilkynna það foreldrum símleiðis og er ákvörðun tekin í samráði við foreldra um hvað gera skuli. Ef um alvarlegt slys er að ræða er hringt á sjúkrabíl. Öll slys sem verða í leikskólanum eru skráð á þar til gert eyðublað. Brunavarnir. Í leikskólanum er brunaviðvörunarkerfi tengt stjórnstöð Securitas. Ef upp kemur eldur í leikskólanum fer í gang ákveðið ferli þar sem hver starfsmaður hefur sitt hlutverk. Brunaæfingar eru haldnar í leikskólanum ár hvert.


Vistunartími barna

Þegar barn byrjar í leikskólanum skrifa foreldrar undir dvalarsamning þar sem fram kemur viðverutími barnsins og er mikilvægt að sá tími sé virtur. Þurfi foreldrar að fá breytingar á viðverutíma barns síns ber þeim að sækja um á rafræn Reykjavik (rafraen.reykjavik.is). Sækja þarf um breytingar um mánaðamót og taka þær gildi mánuði síðar.


Opnunartími leikskólans

Leikskólinn Suðurborg er opinn frá 7.30 - 17.00 og byrjar dagurinn á tveimur deildum þ. e. á Hólakoti og Álfakoti. Deildirnar eru síðan allar komnar í gang kl.8.00 og eru börnin á sinni deild til kl.16.30. Deginum lýkur síðan í salnum fyrir þau börn sem eftir eru.


Sumarfrí

Á vef Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur eru almennar upplýsingar um sumarfrí barna.

Foreldrum leikskólabarna ber að taka sumarfrí í 4 vikur fyrir börn sín og eru leikskólagjöld því greidd í 11 mánuði á ári. Þær fjórar vikur sem barnið er í fríi falla niður leikskólagjöld. 

Um börn sem flytjast frá dagforeldri/einkareknum leikskóla yfir til leikskóla  eftir 1. maí gilda sömu reglur - þeim ber að taka fjögurra vikna samfellt sumarfrí. Börn sem byrja í leikskóla eftir 1. maí og hafa ekki verið í vistun annars staðar hafa val um hvort þau taki sumarfrí. Börn sem byrja fyrir 1. maí taka 4 vikur í sumarfrí.