Leikskólinn Suðurborg

Leikskólinn Suðurborg er til húsa að Suðurhólum 19 í Reykjavík. Leikskólinn starfar í tveimur byggingum og rúmar önnur þeirra eina deild en hin 6 deildir auk sameiginlegra rýma. Leikskólinn tók formlega til starfa janúar 1979 og var þá þriggja deilda dagheimili með rými fyrir 72 börn. Leikskólinn hefur stækkað ört og er nú 7 deilda með rými fyrir 120 börn á aldrinum eins til sex ára. Boðið er upp á breytilegan dvalartíma þ.e. frá 4 og upp í 9 tíma vistun. Leikskólinn er opinn 7:30 til 17:00. Markmið leikskólans er að efla sjálfstæði hvers barns og skila því öruggu út í framtíðina. Þetta gerum við með því að vinna markvisst eftir tveimur kenningum sem eru í senn ólíkar en jafn mikilvægar í leik og starfi með börnum.

Í hugmyndafræði Johns Deweys er áhersla lögð á frjálsa leikinn sem mikilvæg leið að menntun og þroska einstaklingsins. Að börnin læri með því að gera ("Learning by doing") út frá sinni eigin reynslu. Leikefni er mikilvægur þáttur í kenningu Deweys. Það þarf að vera sem raunverulegast og opið og má þar nefna raunverulegi hlutir að heiman, einingarkubba, leir og ýmislegt til listsköpunar. Umhverfið þarf einnig að vera hvetjandi og lærdómsríkt og hinn fullorðni til staðar til að leiða barnið áfram í þekkingarleit sinni.

PBS er hugmyndafræði sem byggist á jákvæðu agakerfi sem fellst í því að kenna, viðhalda og styrkja æskilega hegðun. Allur leikskólinn vinnur eftir kerfinu og þar af leiðandi samræmum við reglur í leikskólanum með einföldum og áhrifaríkum aðferðum. Leikskólinn hefur valið sér þrjú einkunnarorð sem unnið er útfrá samkvæmt PBS kerfinu. Einkunnarorðin eru ábyrgð, umhyggja og öryggi. Kerfið hentar öllum nemendum leikskólans þar sem áhersla er lögð á jákvæða athygli og hrós. Einnig er lögð áhersla á tilfinninga- og félagsfærni í PBS sem leið til efla og bæta samskipti innan leikskólans.